Ski Tour - Snorri í 37.sæti að loknum þremur keppnum

Snorri á miklum spretti í Åre. Mynd: NordicFocus
Snorri á miklum spretti í Åre. Mynd: NordicFocus

Áfram hélt Ski Tour mótaröðin í gær þar sem Snorri Einarsson er meðal þátttakenda. Mótaröðin er hluti af heimsbikarnum sem er sterkasta mótaröð í heimi innan FIS. Í gær fór fram þriðja keppnin af alls sex og í þetta sinn var það sprettganga.

Um heldur óvenjulegan sprett er að ræða, sem fór fram í Åre (Svíþjóð), þar sem hann var einungis 700 metrar og var klifrað upp keppnisbakkann við marksvæðið fyrir alpagreinar í Åre. Keppt var með frjálsri aðferð en heildar klifrið í brautinni var 67 metrar. Snorri ræsti út nr. 73 í röðinni en farið var eftir heimslistanum í sprettgöngu. Snorri átti virkilega góðan sprett og endaði í 53.sæti og náði því að vinna sig upp um 20 sæti miðað við ráslista. 

Þegar keppni er hálfnum á mótaröðinni er Snorri í 37.sæti af alls 90 keppendum sem hófu leik í fyrstu keppni.

Heildarúrslit frá Åre má sjá hér.

Næsta keppni fer fram í Meråker, Noregi, fimmtudaginn 20.febrúar. Keppni hjá körlum hefst kl.12:30 að íslenskum tíma en keppt verður í 38 km F með hópræsingu. Lifandi tímatöku verður hægt að nálgst hér. Einnig er hægt að fylgjast með í sjónvarpi á NRK og SVT.