Scandinavian Cup til Akureyrar 2022

Ákvörðun hefur verið tekin um að Ísland fái að halda mót innan Scandinavian Cup mótaraðarinnar árið 2022. Um er að ræða mótaröð sem flokkast sem sú næsta sterkasta í skíðagöngu innan alþjóðaskíðasambandsins FIS, á eftir heimsbikarnum. Unnið hefur verið að því að fá mótaröðina til Íslands í nokkur ár og nú loksins komið að því, en mótið mun fara fram á Akureyri dagana 18.-.20. mars 2022. Þetta er mikið gleðiefni fyrir skíðahreyfinguna en unnið hefur verið að því að taka virkari þátt í alþjóðegu starfi og er þetta liður í því. 

Ljóst er að mikill fjöldi keppenda kemur til með að koma til Akureyrar og taka þátt í mótinu. Núverandi keppendur í heimsbikar hafa margir hverjir byrjað á þessari mótaröð áður en þeir tóku þátt í heimsbikar. Það er því aldrei að vita að vonarstjörnur framtíðarinnar verði á Akureyri 2022.

Skíðafélag Akureyrar er mótshaldari og má sjá frekari upplýsingar um mótið á heimasíðu félagsins. Einnig er hægt að sjá frétt á heimasíðu norska skíðasambandsins þar sem ákvörðunin var tilkynnt.