Meiri upprifjun frá eldri Skíðamótum Íslands

Feðgarnir Kristinn Björnsson og Björn Þór Ólafsson
Feðgarnir Kristinn Björnsson og Björn Þór Ólafsson

1987

Skíðamóti Íslands 1987 var slitið með veglegu lokahófi á Ísafirði en þá hafði keppni staðið yfir í fjóra daga. Mótið tókst vel og var keppni í flestum greinum mjög jöfn og skemmtileg. Akureyringar voru sigursælir í alpagreinum en í göngu stóðu Ísfirðingar sig best. Þá var hlutur Ólafsfirðingar einnig góður. Bryndís Ýr Viggósdóttir gerði virkilega góða hluti í mótinu og sigraði í svigi, stórsvigi og alpatvíkeppni og þá varð hún önnur í samhliðarsviginu. Hún og Einar Ólafsson frá Ísafirði unnu þrjú gull og eitt silfur á mótinu. Einar sigraði í 30 km göngu og 15 km göngu. Hann sigraði í göngutvíkeppni og þá varð hann annar í norræni tvíkeppni. Þau Rögnvaldur Ingþórsson og Ósk Ebenesardóttir voru einnig mjög sigursæl í göngu. Ólafur Björnsson fór einnig heim hlaðinn verðlaunum. Hann sigraði í stökki og norrænni tvíkeppni þ.e. göngu og stökki. Guðmundur Sigurjónsson frá Akureyri sigraði í stórsvigi, hann varð annar í samhliðasvigi og þá er hann bikarmeistari SKÍ í karlaflokki. Daníel Hilmarsson frá Dalvík sigraði í svigi og varð þriðji í samhliðarsvigi en hann féll úr keppni í stórsvigi. Örnólfur Valdimarsson frá Reykjavík sigraði í samhliða svigi karla annað árið í röð og í kvennaflokki sigraði hin stórefnilega Ásta Halldórsdóttir frá Ísafirði.

Gaman er að geta þess að Bryndís Ýr Viggósdóttir og Guðmundur Sigurjónsson eru foreldar Maríu Guðmundsdóttur landsliðskonu í alpagreinum og ein fremsta skíðakona Íslands í dag en María keppir á Skíðamóti Íslands um helgina og gaman verður að sjá hvort hún geti toppað foreldra sína.

,,Björn Þór Ólafsson frá Ólafsfirði mætti að sjálfsögðu á Skíðamót Íslands á Ísafirði um páskana og keppti þar bæði í göngu og stökki. Þetta var í 28. skiptið sem Björn Þór mætir á landsmót og jafnframt hans 25. í röð. Hann var aldursforseti keppenda en sýndi það og sannaði enn einu sinni hversu snjall íþróttamaður hann er”. Björn Þór Ólafsson er ennþá að en hann keppti á Skíðamóti Íslands árið 2015 og fór gangan fram í hans heimabæ í Ólafsfirði en Björn Þór er faðir Kristins Björnssonar, ,,Kidda Bubba”, sem er besti skíðamaður sem Ísland hefur átt í alpagreinum.


1991

Kristinn fyrsti meistari Ólafsfirðinga. Er þetta fyrirsögn sem birtist í Morgunblaðinu 5. apríl 1991. ,,Ólafsfirðingurinn ungi Kristinn Björnsson kom, sá og sigraði á fyrsta keppnisdegi Skíðamóts Íslands á Seljalandsdal við Ísafjörð í gær. Hann hafði mikla yfirburði í stórsvigi karla og vann þar fyrsta íslandsmeistaratitil Ólafsfirðinga í alpagreinum frá upphafi”. Kristinn, sem var 18 ára þá, var rúmlega tveimur sekúndum á undan næsta keppanda í fyrri umferð og lagði þar grunninn að sigrinum. ,,Ég tók enga áhættu í síðari umferðinni þar sem forskotið eftir fyrri ferð var mjög gott. Ég var mjög undrandi þegar ég heyrði tímann í fyrri umferðinni vegna þess að ég átti í erfiðleikum efst í brautinni. Fyrir mótið vissi ég ekkert hvar ég stæði gagnvart hinum stráknunum. En það er greinilegt að dvölin í Noregi hefur gert mér gott”. Sagði Kristinn sem á þeim tíma hafði verið í skíðamennstaskóla í Geilo eins og svo margir aðrir íslenskir skíðakappar. Örnólfur Valdimarsson úr Reykjavík var næstur á eftir Kristni í fyrr umferð, en féll ofarlega í síðari umferð. ,,Ég tók áhættu efst í brautinni því það var annaðhvort að sigra eða ekkert. En ég lenti of neðarlega þegar ég kom niður úr brattanum og því fór sem fór”. Sagði Örnólfur.

Ásta Halldórsdóttir sigraði í stórsvigi á fyrsta degi í Skíðamóti Íslands 1991. ,,Það er æðisleg tilfinnig að vinna Íslandsmeistaratitilinn í stórsvigi”. Sagði Ásta Halldórsdóttir frá Ísafirði, sem hafði þá tvívegis orðið meistari í svigi. Ásta var einni sekúndu á undan Íslandsmeistaranum frá árinu áður, Guðrúnu H. Kristjánsdóttur frá Akureyri. Ásta sagðist hafa tekið á öllu sem hún átti í síðari umferð þar sem Guðrún hafði hálfrar sekúndu forskot á hana eftir fyrri umferð. ,,Það var engu að tapa í síðari umferð, enda var ég mjög ánægð með hana. Fyrri umferðin var ekki góð hjá mér. Hingað til hefur svigið verið mín aðalgrein, en nú hef ég fundið mig líka í stórsviginu”, sagði Ásta.

Haukur og Daníel í sérflokki. Var grein sem birtis í sama blaði um skíðagöngukeppnina á Skíðamóti Íslands árið 1991. Haukur Eiríksson frá Akureyri. Daníel Jakobsson frá Ísafirði höfðu mikla yfirburði í göngu karla og pilta 17 - 19 ára. Karlarnir gengu 15 km  en piltarnir 10 km með frjálsri aðferð. Haukur fór rólega af stað en jók forskotið jafnt og þétt og kom í mark einni mínútu á undan Sigurgeiri Svavarssyni frá Ólafsfirði, sem varð annar. Rögnvaldur Ingþórsson, Akureyri, varð þriðji. ,,Sigurinn kom mér á óvart þar sem ég hef ekki æft mikið í vetur. Ég hef verið í skóla og er kominn með fjölskyldu. Ég náði þó að æfa vel síðustu þrjár vikurnar fyrir mótið og hef hitt á rétta formið á réttum tíma”. Sagði Haukur sem hafði verið við nám í Umea í Svíþjóð. Daníel Jakobsson var tæpum þremur mínútum á undan Tryggva Sigurðssyni frá Ólafsfirði í flokki 17 – 19 ára og 4 mín. á undan Kristjáni Ólafssyni frá Ólafsfirði. ,,Brautin var frekar erfið. Ég er líka orðinn þreyttur þar sem ég hef keppt hátt í 30 sinnum í vetur, en á sama tíma í fyrra hafði ég aðeins keppt 11 sinnum”. Sagði Daníel.

Árið 1992 áttu þau Kristinn, Örnólfur, Ásta, Haukur og Rögnvaldur eftir að fara saman á Ólýmpíuleikana í Albertville. Kristinn, Örnólfur og Ásta kepptu fyrir hönd Íslands í alpagreinum á meðan Haukur og Rögnvaldur sáu um skíðagönguna.