Matthías fékk gull í Kirkerud í Noregi

A-landsliðsmaðurinn okkar Matthías Kristinsson gerði sér lítið fyrir og sigraði í svigi á alþjóðlegu móti í Kirkerud í Noregi í dag. 

Fyrir sigurinn fékk hann 33.60 FIS punkta sem er besti árangur ferilsins hingað til. 

Síðasta sunnudag keppti Matthías einnig í svigi á alþjóðlegu móti í Sundsvall í Svíþjóð þar sem hann endaði í 6. sæti og gerði sína næst bestu FIS punkta eða 33.79. Það má því segja að Matthías sé á fleygi ferð niður brekkurnar þessa dagana og er að bæta stöðu sína á heimslista svo um munar. 

 SKÍ óskar Matthíasi til hamingju með glæsilegan árangur. 

Elín Elmarsdóttir Van Pelt B-landsliðskona í alpagreinum gerði einnig sína bestu FIS punkta á ferlinum, 71.87, þegar hún hafnaði í 26. sæti í stórsvigi á alþjóðlegu móti í Kronplatz í dag. 

SKÍ óskar einnig Elínu til hamingju með bætinguna.