Magnaður árangur á norska meistaramótinu í skíðagöngu - Tvö í úrslit í sprettgöngu

Isak, Albert og Kristrún fyrir miðju í glæsilegum hóp.
Isak, Albert og Kristrún fyrir miðju í glæsilegum hóp.

Þessa dagana fer fram norska meistaramótið í Konnerud við Drammen í Noregi. Allt besta skíðagöngufólk Noregs er þar saman komið ásamt keppendum úr íslenska landsliðinu. Skemmst er frá því að segja að Isak Stianson Pedersen og Kristrún Guðnadóttir komust bæði í úrslit í sprettgöngu fyrr í dag. Einungis 30 efstu að lokinni tímatöku komast í úrslitin og voru um 100 konur og 150 karlar sem tóku þátt.

Isak endaði í 24.sæti í tímatökunni og fékk 60.75 FIS sem eru hans bestu úrslit á ferlinum í sprettgöngu. Gera má ráð fyrir að hann taka stórt stökk á næsta heimslista og fari undir 200 á listanum. Í úrslitunum komst Isak ekki í gegnum fyrsta undanriðla og endaði í 5.sæti þar af alls sex keppendum. Meðal keppenda í hans riðli var Martin Johnsrud Sundby, margfaldur heimsbikarmeistari.

Kristrún endaði í 30.sæti í tímatökunni og fékk 103.45 FIS sem eru hennar næst bestu á ferlinum í sprettgöngu og mun hún því lækka á næsta heimslista og verður í kringum 200.sætið. Eins og Isak þá datt hún út fyrsta undanriðli en þar endaði hún í 6.sæti. Meðal keppenda í hennar riðla var Heidi Weng sem hefur verið meðal bestu kvenna í heiminum undanfarin ár.

Albert Jónsson var svo á meðal keppenda í 15 km göngu með frjálsri aðferð í gær. Albert endaði í 138.sæti og fékk 123.08 FIS stig sem er aðeins frá hans stöðu á heimslistanum.

Öll úrslit má sjá hér.