Landsliðsfólk í alpagreinum að ná góðum árangri erlendis

Hólmfríður, María, Andrea og Freydís á HM í Åre fyrr í vetur
Hólmfríður, María, Andrea og Freydís á HM í Åre fyrr í vetur

Landsliðsfólkið okkar í alpagreinum hefur verið ansi iðið við kolann undanfarna daga við keppni á erlendri grundu og náð þar góðum árangri.

Freydís Halla Einarsdóttir keppti í svigi á tveimur FIS mótum í Sugarbush í Bandaríkjunum og hafnað þar í 8. sæti og 5. sæti og hlaut fyrir það 55.05 og 46.22 FIS stig.  Freydís keppti einngi í svigi á Bandaríska meistaramótinu sem fram fór 24. mars í Waterville Valley og náði þar 16. sætinu og hlaut fyrir það 46.38 FIS stig.

Hólmfríður Dóra Friðgeirsdóttir keppti í stórsvigi í Wyller í Noregi 16. mars og hafnaði þar í 11. sæti sem gaf henni 44.39 FIS stig, sem er hennar besti árangur frá upphafi og því bæting á heimslista.  Hólmfríður keppti einnig í stórsvigi á Sænska unglingameistaramótinu í Almåsa þann 23. mars og hafnaði þar í 19. sæti sem gaf henni 69.07 FIS stig.

María Finnbogadóttir keppti í svigi á FIS móti í Hinterreit í Austurríki þann 21. mars og hafnaði þar í 9. sæti sem gaf henni 56.82 FIS stig.  María keppti svo einngi í svigi á Slóvenska meistaramótinu í Krvavec þann 24. mars og náði að landa þar 10. sætinu og 42.88 FIS stigum, sem er hennar besti árangur frá upphafi og því bæting á heimslista. 

Andrea Björk Birkisdóttir keppti í svigi á FIS móti í Kirkerud í Noregi þann 21. febrúar s.l. og náði hún þar 20. sæti sem gaf henni 44.72 FIS stig, sem er hennar besti árangur frá upphafi og því bætinga á heimslista.

Sturla Snær Snorrason keppti í svigi á FIS móti í Windhaus í Sviss þann 5. mars og hafnaði í 9. sæti og hlaut fyrir það 33.05 FIS stig.  Sturla var einnig meðal keppenda í svigi á tveimur FIS mótum í Vipiteno / Monte Cavallo á Ítalíu þann 11.-12. mars og hafnaði hann þar í 22. sæti og 10. sæti og hlut fyrri það 36.47 og 43.00 FIS stig.

Þann 3.-4. apríl mun allt landsliðsfólkið okkar svo koma til Íslands og keppa á Atomic Cup á Akureyri og svo í kjölfarið á Skíðamóti Íslands, sem fram fer á Dalvík dagana 6.-7. apríl n.k.