Isak og Snorri beint í aðalkeppnir á HM í skíðagöngu

Isak Stianson Pedersen og Snorri Einarsson
Isak Stianson Pedersen og Snorri Einarsson

Sex íslenskir keppendur taka þátt í skíðagönguhlutanum á HM í norrænum greinum sem fram fer í Seefeld, Austurríki. Mótið hefst formlega á morgun þegar undankeppni fer fram. Þar keppa þeir keppendur sem ekki hafa náð lágmörkum fyrir HM um sæti í aðalkeppnum í lengri vegalengdum. Þau lágmörk eru að hafa náð undir 90 FIS stigum hjá körlum og undir 120 FIS stigum hjá konum í einu móti í lengri vegalengdum á síðustu 365 dögum fyrir mót.

Þeir Isak Stianson Pedersen og Snorri Einarsson hafa báðir náð þessum lágmörkum og þurfa því ekki að fara í undankeppni og geta tekið þátt í öllum aðalkeppnum í lengri vegalengdum. Isak náði lágmörkunum á FIS móti í Noregi 16.febrúar síðastliðinn. Það má því með sanni segja að hann náð lágmörkunum í síðustu tilraun fyrir HM.

Undankeppnin fer fram á morgun og þar verða því þrír íslenskir keppendur, Albert Jónsson, Dagur Benediktsson og Kristrún Guðnadóttir.

Upplýsingar um öll mót á HM í Seefeld má sjá hér.