Hver er Vegard Karlstrøm?

Vegard Karlstrøm var ráðinn landsliðsþjálfari  í skíðagöngu í vor. Vegard er þrítugur norðmaður sem ólst upp á litlum sveitabæ í Langfjordbotn í Noregi. Hann byrjaði sjálfur fremur seint að keppa á gönguskíðum eða um 13 ára aldur. Þrátt fyrir það náði Vegard góðum árangri á landsvísu í unglingaflokkum eða þar til hann hætti að keppa um 23 ára aldur. Nokkrum árum síðar byrjaði Vegard að þjálfa unglinga, honum líkaði vel að geta miðlað reynslu sinni og þekkingu til upprennandi skíðamanna og kvenna. Vegard var fljótlega ráðinn sem þjálfari hjá skíðamenntaskóla í Nordreisa, en hann er einn af fimm skólum sem hlýtur sérstakann stuðning frá norska skíðasambandinu. Vegard þjálfaði hjá skólanum í fjögur ár en síðasta árið hefur hann notað til að byggja upp fjallaleiðsögu fyrirtæki með fjölskyldu sinni í Langfjordbotn þar sem hann býr ásamt konu og barni.
Vegard segist spenntur fyrir komandi vetri með íslenska landsliðinu í skíðagöngu. Landsliðsfólkið hefur æft vel og vonast hann til að allir nái sínum persónulegu markmiðum. Hann hefur komið tvær ferðir til Íslands í sumar til að stýra vel heppnuðum samæfingum. Í fyrra skiptið var hann í tvær vikur og fór og kynnti sér aðstæður í Reykjavík, Ísafirði, Akureyri og Ólafsfirði ásamt því að hitta A-landsliðið í þeirra heimabyggð og fara yfir æfingaplanið. Hann segir aðstæður til æfinga á Íslandi vera frábærar, hér sé nóg af fjöllum og mismunandi landslagi til að hlaupa í en það er mikilvægur hluti þjálfunar. Hann segir að hér séu einnig margir frábærir vegir fyrir hjólaskíði og nefnir þá sérstaklega Hlíðarfjalls og Bláfjallavegina. Vegard segir að honum líði vel á Íslandi, landslagið og menningin sé ekki ólík því sem hann þekkir frá norður Noregi.

Framundan er undirbúningur fyrir Ólymíuleikana sem fara fram í febrúar í Suður-Kóreu. Markmiðið er að fara með þrjá keppendur í skíðagöngu á leikana. Seinna í þessum mánuði fer A-landsliðið á heimaslóðir Vegards í norður Noregi í æfingaferð og í nóvember hefjast fyrstu mót vetrarins.