HM í Åre - Sturla Snær lauk ekki fyrri ferð í stórsviginu

Keppni hélt áfram í dag á HM í alpagreinum í Åre með aðalkeppni í stórsvigi karla.
Sturla Snær Snorrason var eini íslenski keppandinn sem náði að tryggja sér sæti í aðalkeppninni eftir að hafa náð 20. sæti í undankeppninni í gær.

Sturla var með rásnúmer 70 í dag af alls 98 sem hófu keppni. Hann var kominn niður um hálfa brautina þegar honum hlekktist á og náði hann þá því miður ekki að klára fyrri ferðina. Veður var gott, sól og blíða en brautin þó verulega farin að láta á sjá þegar kom að Sturlu og það reyndist honum því erfitt að ná að halda bæði góðum hraða og línu.

Staðan eftir fyrri ferðina

Á morgun, kl. 10:00, að íslenskum tíma, fer fram aðalkeppni í svigi kvenna, þar sem allir fjórir íslensku keppendurnir verða með. Freydís Halla mun ræsa fyrst íslensku keppandanna nr. 57 og svo koma þær Andrea Björk, Hólmfríður Dóra og María í röð með rásnúmer  65, 66 og 67. Ráslista og lifandi tímatöku er hægt að finna hér.

Einnig fer fram undankeppni karla í svigi í Duved og hefst hún kl. 08:30 að íslenskum tíma. Þar verða allir fjórir íslensku keppendurnir með og freista þess að ná einu af 25 efstu sætunum til að komast inní aðalkeppnina á sunnudag. Rásnúmer koma í ljós í kvöld en hægt er að finna allar upplýsingar um mótið hér.