HM í Åre - Sturla Snær komst áfram úr undankeppni í stórsvigi

Allir keppendur eftir undankeppni í stórsvigi
Allir keppendur eftir undankeppni í stórsvigi

Fyrr í dag fór fram undankeppni karla í stórsvigi á heimsmeistaramótinu í alpagreinum. Fjórir íslenskir keppendur tóku þátt í undankeppninni og náði einn þeirra, Sturla Snær Snorrason, að komast áfram í aðalkeppnina. 

Sturla Snær var með rásnúmer 25 og því 25. sterkasti keppandinn miðað við heimslista. Það var því vitað að hann mætti ekkert slaka á því einungis 25 efstu komust áfram úr undankeppninni. Að lokinni fyrri ferð var hann í 24.sæti en endaði að lokum í 20.sæti eftir góða seinni ferð. Sturla Snær fer því beint í aðalkeppnina sem fer fram á morgun og verður eini íslenski keppandinn þar.

Gísli Rafn Guðmundsson átti frábæra fyrri ferð en hann hafði rásnúmer 71 og endaði í 31.sæti eftir fyrri ferðina. Var hann einungis tveimur sekúndubrotum frá 30.sætinu sem ræsti fyrstur í seinni ferð. 30 efstu eftir fyrri ferð eru ávallt ræstir út í öfugri röð í þeirri seinni. Í seinni ferðinni átti Gísli fína ferð og endaði í 31.sæti, líkt og eftir þá fyrri. Sigurður Hauksson átti tvær flottar ferðir og endaði í 41.sæti eftir að hafa haft rásnúmer 64. Báðir eru þeir að bæta sig mikið á heimslista en Gísli Rafn fékk 49.32 FIS stig en er með 82.40 FIS stig og Sigurður fékk 66.75 FIS stig og er með 77.07 FIS stig. Kristinn Logi Auðunsson náði ekki að klára seinni ferðina eftir að hafa verið í 55.sæti eftir þá fyrri.

Undankeppni karla - Stórsvig
20.sæti - Sturla Snær Snorrason 33.64 FIS stig
32.sæti - Gísli Rafn Guðmundsson 49.32 FIS stig
41.sæti - Sigurður Hauksson 66.75 FIS stig
Kristinn Logi Auðunsson lauk ekki seinni ferði.

Heildarúrslit má sjá hér.

Eins og áður segir tekur Sturla Snær þátt í aðalkeppninni í stórsvigi á morgun. Þeir verða svo allir fjórir aftur á ferðinni á laugardag í undankeppni í svigi.