Hilmar Snær fyrstur Íslendinga til að vinna Evrópumótaröðina

Hilmar Snær Örvarsson
Hilmar Snær Örvarsson

Skíðamaðurinn Hilmar Snær Örvarsson frá Skíðadeild Víkings varð á föstudaginn fyrstur Íslendinga til þess að vinna sigur á Evrópumótaröð IPC í alpagreinum. Hilmar hafði sigur í svigkeppni föstudagsins og að henni lokinn var ljóst að ekki yrði keppt í stórsvigi á laugardag vegna aðstæðna. Þar af leiðandi er Hilmar sigurvegari heildarstigakeppninnar á Evrópumótaröðinni með gull í svigi og silfur í stórsvigi. Sannarlega magnaður árangur hjá Hilmari sem hefur síðustu ár klifrað hratt upp metorðastigann í alpagreinum og er nú á meðal allra fremstu alpagreinamanna fatlaðra í heiminum um þessar mundir.

Hilmar var ekki einn um að rita nýjan kafla í íþróttasögu okkar Íslendinga í dag því yfirdómari keppninnar í dag var þjálfari Hilmars, Þórður Georg Hjörleifsson en þetta var í fyrsta sinn sem mótshluta Alþjóðlegs móts á vegum IPC er í höndum Íslendings. Hilmar og Þórður hafa starfað saman núna í liðlega áratug og eru að uppskera ríkulega af allri erfiðisvinnunni.

Eftir fyrri ferðina á föstudag var Hilmar í 2. sæti á tímanum 47,30 sek. og Austurríkismaðurinn Thomas Grochar var í forystunni á tímanum 46,56 sek. Hilmar kom svo í mark á 51,47 sek. í annarri ferðinni og keppinautur hans Thomas var að skíða vel en í blálok brautarinnar fipaðist hann og missti hlið og var því dæmdur úr leik og sigur Hilmars því í höfn.

Skíðasamband Íslands óskar Hilmari og öllu hans teymi til hamingju með stórkostlegan árangur.