Heimsbikarinn í Ruka - Snorri í 65.sæti

Snorri Einarsson í dag. Mynd: NordicFocus
Snorri Einarsson í dag. Mynd: NordicFocus

Fyrstu heimsibikarhelginni í skíðagöngu lauk í dag með keppni í 10/15 km göngu með hefðbundinni aðferð. Konur fóru 10 km á meðan karlarnir fóru 15 km. Fínustu aðstæður voru á staðnum en vegna smá snjóleysis þurfti að gera breytingar á keppnisbrautinni, karlarnir fóru því 4 x 3,75 km hringi í staðinn fyrir 3 x 5 km hringi.

Snorri Einarsson tók þátt í dag og endaði í 65.sæti. Snorri náði sér aldrei á strik í dag fyrir utan stuttan kafla um miðbik keppninnar þegar hann fylgdi Martin Jonsrud Sundby eftir sem endaði í 4.sæti í dag. Markmiðið, sem ávallt er að ná í efstu 30 sætin, náðist því ekki í dag.

Rússinn Alexander Bolshunov sigraði í dag nokkuð sannfærandi og byrjar því tímabilið á tveimur sterkum sigrum.

Hér má sjá öll úrslit helgarinnar frá Ruka.

Hjá Snorra tekur við ferðalag til Lillehammer í Noregi þar sem hann mun taka þátt í næsta heimsbikarmóti. Svokallað "mini tour" mót fer fram þar en það samanstendur af þremur keppnum sem allar eru sérkeppnir en á sama tíma er líka verðlaunað fyrir samanlagðan árangur fyrir allar þrjár keppnirnar. Eftir hverja keppni er ræst út eftir árangri fyrri keppna en ekki eftir heimslistastöðu eins og gengur og gerist venjulega.

Dagskrá í Lillehammer

Föstudagur 30.nóv
Sprettur frjáls aðferð

Laugardagur 1.des
15 km frjáls aðferð

Sunnudagur 2.des
15 km eltiganga, hefðbundin aðferð

Hér má finna upplýsingar um mótið í Lillehammer.