Fyrstu mót vetrarins um helgina

Á laugardaginn fara fram tvö alþjóðleg FIS mót í alpagreinum á Dalvík og keppt verður í svigi. Mótið er ekki hluti af bikarmótaröð SKÍ og því einungis mót sem gefur alþjóðlega FIS punkta. Upphaflega átti mótið að fara fram 6.-8.janúar í Hlíðarfjalli á Akureyri ásamt því að vera tvö svig og tvö stórsvig. Vegna snjóleysis á Akureyri var ákveðið að fresta mótinu um eina vika og færa mótið á Dalvík þar sem snjóalög eru betri þar. Einnig var ákveðið að aflýsa báðum stórsvigsmótunum en þó svo að það séu betri snjóalög á Dalvík er ekki nógu mikill snjór fyrir stórsvig.

Í vetur mun SKÍ standa fyrir beinni útsendingu frá mótum á netinu og fyrsta útsending verður gerð á Dalvík um helgina. Stefnt er að því að sýna frá báðum mótum í gegnum YouTube og má nálgast slóðina á mótin hér en útsending mun hefjast 15 mínútum fyrir ræsingu. Með nútíma tækni er þessi möguleiki orðinn mun auðveldari og raunhæfari en áður.

Dagskrá helgarinnar má sjá hér að neðan:

Laugardagurinn 14.janúar - Dalvík

Mót 1
kl. 10:30 - Skoðun
kl. 10:45 - Skoðun líkur
kl. 11:00 - Fyrri ferð 
kl. 11:30 - Seinni ferð

Mót 2
kl. 12:45 - Skoðun
kl. 13:00 - Skoðun líkur
kl. 13:15 - Fyrri ferð 
kl. 13:45 - Seinni ferð