Fyrri keppnisdegi lokið á World Rookie Fest í Livigno

Baldur Vilhelmsson á góðu flugi í brautinn í Livigno í dag.
Baldur Vilhelmsson á góðu flugi í brautinn í Livigno í dag.

Í dag hófst keppni í brekkustíl (slopestyle) á World Rookie Fest snjóbrettamótinu í Livigno á Ítalíu.  Alls voru 8 íslenskir keppendur frá SKÍ skráðir til leiks, en keppt er í aldurflokkum 16-18 ára (Rookie) og 13-15 ára (Groms).  Undankeppni í brekkustíl fór fram við frábærar aðstæður í dag en þar voru farnar tvær ferðir, þar sem betri ferðin gildir hjá hverjum keppanda. 

Landsliðsmenn SKÍ, þeir Benedikt Friðbjörnsson og Baldur Vilhelmsson, báðir úr Skíðafélagi Akureyrar, kepptu í flokki 16-18 ára pilta, en þar voru alls 35 keppendur skráðir til leiks.  Til að tryggja sig inn í úrslitin þurftu þeir að ná að vera í einu af 16 efstu sætunum.  Baldur náði að tryggja sig inní úrslitin með því að ná 11. sætinu með 60,5 stig.  Benedikt varð að láta sér lynda 23. sætið í dag með 14,8 stig.

Í flokki 16-18 ára stúlkna kepptu þær Anna Kamilla Hlynsdóttir frá Brettafélagi Hafnarfjarðar og Lilja Rós Steinsdóttir úr Skíðafélagi Akureyrar.  Alls voru 11 keppendur skráðir til leiks og þurftu þær að ná að vera í einu af 6 efstu sætunum til að tryggja sig inní úrslitin.  Svo fór að Anna Kamilla varð í 10. sæti með 12,3 stig og Lilja Rós varð í 11. sæti með 11,3 stig.

Í flokki 13-15 ára drengja áttum við 3 keppendur, þá Reynar Hlynsson úr BFH og Skírni Daða Arnarsson og Hafstein Heimi Óðinsson úr Skíðafélagi Akureyrar.  Svo fór að Reynar varð í 27. sæti með 14,0 stig, Skírnir Daði varð í 29. sæti með 10,5 stig og Hafsteinn Heimir í 32. sætinu með 7,5 stig.  En ná þurfti einu af 16 efstu sætunum til að komast inní úrlsitin.

Bergdís Steinþórsdóttir úr Brettafélagi Fjarðabyggðar keppti í flokki 13-15 ára stelpna, en þar voru alls 7 keppendur skráðir til leiks og þurfti að ná einu af 4 efstu sætunum til að komast í úrslitin.  Bergdís varð í 6. sæti í dag með 15,3 stig.

Þess má geta að þetta var í fyrsta sinn sem þetta unga og efnileg brettafólk í flokkum 13-15 ára kepptu á alþjóðlegu móti á erlendri grundu og stóð þau sig öll með miklum sóma og öðluðust þarna dýrmæta reynslu fyrir framtíðina.

Öll úrslit úr mótinu má sjá nánar hér.

Á morgun fara svo fram úrlsit í brekkustíl og verður gaman að sjá hvað Baldur Vilhelmsson gerir þar.  Bein útsending verður frá úrslitunum og má fylgjast með því hér