Fyrirlestrar á ársfundinum

Skíðasamband Íslands stendur fyrir ársfundi laugardaginn 21.maí. Boðið verður uppá fjóra fyrirlestra milli kl.16-18 á Hilton Reykjavík Nordica hóteli. Fyrirlestrarnir eru hver öðrum glæsilegri og vildum við aðeins fara yfir hvern og einn. Við hvetjum alla sem hafa áhuga á fyrirlestrunum til að mæta.

Sarah Lewis - Hvað er FIS og hver er framtíðin?

Innan alþjóðaskíðasambandsins FIS eru stundaðar margar greinar og starfsemi þess er mikil. Sarah Lewis, framkvæmdastjóri FIS, mun segja okkur frá starfsemi sambandsins, stöðu íþróttarinnar á heimsvísu og þær breytingar sem framundan eru. 

Eiliv Furuli - Framkvæmd stærri viðburða í skíðagöngu

Eiliv Furuli starfar sem framkvæmdastjóri mótahalds í skíðagöngu í Lillehammer. Árlega fer fram Birkebeiner almenningsskíðagangan sem er sú stærsta í Noregi ásamt heimsbikarmótum sem fara reglulega fram á staðnum. Hvað þarf til að framkvæma slíka viðburði?

Hedda Berntsen - For the love of skiing - coaching strategies for young athletes in development

Hedda Berntsen er doktorsnemi í íþróttasálfræði og á að baki ótrúlegan skíðaferil. Bronsverðlaun á HM í svigi, gullverðlaun á HM í telemark og silfurverðlaun á Ólympíuleikum og X-games í ski cross.

Ingólfur Hannesson - Íþróttir og fjölmiðlar

Í dag er Ingólfur Hannesson yfirmaður íþróttasamninga hjá EBU, en áður starfaði hann sem íþróttastjóri hjá RÚV í áraraðir. Hvar stendur skíðaíþróttin gagnvart fjölmiðlum?