FIS æfingabúðir í alpagreinum

Þessa dagana eru tveir íslenskir iðkendur í alpagreinum í æfingabúðum á vegum FIS. Er þetta í fyrsta skiptið í langan tíma sem SKÍ tekur þátt í þessu verkefni en þetta er hluti af þróunarstarfi FIS fyrir litlu þjóðirnar. FIS býður tveimur iðkendum á aldrinum 16-20 ára frá hverri þjóð að taka þátt. Um 15 þjóðir taka þátt en æfingabúðirnar standa yfir frá 19.nóvember til 16.desember. Reyndir þjálfarar frá FIS sjá um allar æfingar og eru tvær æfingar á dag.

Þátttakendur frá SKÍ eru þau Georg Fannar Þórðarson og Katla Björg Dagbjartsdóttir, en þau eru bæði í B landsliðinu í alpagreinum.

Æfingarnar byrjuðu á Stubai í Austurríki en fljótlega færði hópurinn sig yfir til Ítalíu og hefur æft og keppt þar síðan. Að sögn þátttakendana hafa aðstæður verið mjög góðar og æfingar gengið vel.