Birkir Georgsson sigrar á World Rookie Tour

Birkir að taka við verðlaunum fyrir sigurinn
Birkir að taka við verðlaunum fyrir sigurinn

Undanfarna daga hefur unglingalandslið og afrekshópur SKÍ á snjóbrettum verið við æfingar og keppni í Livigno á Ítalíu. Hópurinn fór að utan 12.janúar og tók þátt í World Rookie Fest mótinu í Livigno sem er hluti af World Rookie Tour mótaröðinni. Alls kepptu 107 stákar á mótinu og af þeim voru níu íslenskir keppendur en keppt var í slopestyle. Af þeim 107 sem hófu keppni komust einungis 32 bestu úr undankeppni inní aðalkeppnina og komust fjórir íslenskir keppendur þangað inn sem er frábær árangur, en mótið þykir eitt það sterkasta í þessari mótaröð.

Þeir sem komust inní aðalkeppninu voru þeir Birkir Georgsson, Marínó Kristjánsson, Baldur Vilhelmsson og Egill Gunnar Kristjánsson.

Í gær fór aðalkeppnin fram þar sem 32 bestu kepptu sín á milli. Birkir Georgsson, úr afrekshóp SKÍ, gerði sér lítið fyrir og sigraði mótið! Allir fengu þrjár ferðir í aðalkeppninni og þar náði Birkir í 94,6 stig í sinni síðustu ferð en að hámarki er hægt að fá 100 stig. Marinó endaði í 12.sæti, Baldur í 25.sæti og Egill Gunnar í 32.sæti.

Þrátt fyrir að allir hafi keppt saman var einnig keppt sérstaklega í tveim aldurskiptum flokkum. Í yngri flokknum endaði Baldur Vilhelmsson í 7.sæti og Benni Friðbjörnsson í 12.sæti. Í þeim eldri sigraði Birkir Georgsson, Marínó Kristjánsson var í 10.sæti, Egill Gunnar Kristjánsson í 23.sæti, Oddur Vilberg Sigurðsson í 44.sæti, Aron Snorri Davíðsson í 48.sæti og Tómas Orri Árnason í 54.sæti.

Hér má sjá heildarúrslit úr mótinu. 

Hér má svo sjá úrslit þar sem búið er að skipta í aldursflokka.

Að neðan er myndband frá ferðunum hjá öllum sigurvegurum, í lok myndbandsins má sjá ferðina hjá Birki.

2017 World Rookie Fest . Winning Runs from MOON on Vimeo.