Baldur Vilhelmsson náði 9. sæti í Evrópubikar

Baldur Vilhelmsson á góðu flugi
Baldur Vilhelmsson á góðu flugi

Í gær fór fram Evrópubikarmót á snjóbrettum í Font Romeu í Frakklandi.
Allir A- og B-landsliðsmenn Íslands á snjóbrettum voru með í mótinu, undir handleiðslu Einars Rafns Stefánssonar landsliðsþjálfara.

Veðrið setti mikið strik í reikninginn á mótinu og urðu mótshaldarar að fella niður alla Slope Style keppnina, en keppt var í Big Air í gær.

Baldur Vilhelmsson gerði sér lítið fyrir og náði 9. sætinu í Big Air keppninni og hlaut hann fyrir það 46.40 FIS stig.  Baldur hlaut einnig 145 Evrópubikarstig og er Baldur því kominn í 16. sæti í heildarkeppninni í Big Air í Evrópubikarnum. Heildarstöðuna má sjá hér.
Sannarlega frábær árangur hjá Baldri og besti árangur sem íslenskur snjóbrettamaður hefur náð í Evrópubikar á snjóbrettum, sem er næst sterkasta mótaröð í heiminum á eftir heimsbikar.  

Aðrir keppendur Íslands stóðu sig einngi vel á mótinu og náðu eftirfarandi sætum:
15. sæti - Marinó Kristjánsson
20. sæti - Aron Snorri Davíðsson
23. sæti - Benedikt Friðbjörnsson
24. sæti - Egill Gunnar Kristjánsson
34. sæti - Tómas Orri Árnason 

Úrslitin úr mótinu í heild sinni má sjá hér.