Baldur og Benedikt í verðlaunasætum

Baldur Vilhelmsson (lengst til vinstri) á verðlaunapallinum í Noregi í gær
Baldur Vilhelmsson (lengst til vinstri) á verðlaunapallinum í Noregi í gær

Baldur Vilhelmsson, snjóbrettamaður úr SKA náði í gær 2. sæti í sínum aldursflokki á Norgescup í Vierli í Noregi.  Baldur sem keppti í brettastíl (slopestyle) náði stigum uppá 67.25 í fyrri ferðinni en bætti svo um betur og náði 79.75 stig í seinni ferðinni, sem tryggði honum 2. sætið.  Baldur náði þar með einnig að landa 3. sætinu í heildarkeppninni af alls 38 keppendum í brettastíl. 

Þessi frábæri árangur gefur honum 332.76 stig á heimslista TTR (WSPL), sem hækkar hann uppí sæti 113 á heimslistanum, sem er hans besti árangur frá upphafi!  Úrslit úr mótinu má sjá nánar hér

Baldur keppti einnig í risastökki (big air) á þessu móti og þar náði hann að enda í 10. sæti í sínum flokki og í 15. sæti í heildarkeppninni og hlaut hann 59.22 stig á heimslista TTR (WSPL) fyrir það.  Baldur er sem stendur í 100. sæti á heimslistanum í risastökki.  Úrslitin úr mótinu má sjá nánar hér

Benedikt Friðbjörnsson, snjóbrettamaður úr SKA náði um s.l. helgi að landa 3. sæti á unglingamótinu Vans Groms Open í Mayrhofen í Austurríki.  Þar endaði Benni með 7,4 stig og 3. sætinu af 23. keppendum í flokki U18.  Benedikt er sem stendur í sæti 171 í brekkustíl og sæti 106 í risastökki á heimslistum TTR (WSPL).  Úrslitin úr mótinu má sjá nánar hér.

Sannarlega frábær byrjun á árinu hjá okkar mönnum!  Í næstu viku keppa þeir Baldur og Benedikt, ásamt 6 keppendum úr afreskhópi SKÍ, á World Rookie Fest mótinu, sem fram fer í Livigno á Ítalíu

Dagana 18. og 19. janúar heldur svo allt landslið SKÍ á snjóbrettum, þeir Baldur Vilhelmsson, Egill Gunnar Kristjánsson, Marinó Kristjánsson og Benedikt Friðbjörnsson til Vars í Frakklandi þar sem þeir keppa allir í Evrópubikar FIS.  

Það verður því mjög spennandi og gaman að fylgjast með okkar besta snjóbrettafólki næstu dagana.