Andrésarleikarnir 40 ára!

40. Andrésar andar leikarnir í skíðaíþróttum verða haldnir í Hlíðarfjalli við Akureyri dagana 22.-25. apríl 2015.

Andrésarleikarnir eru stærsta skíðamót landsins með um 700-800 keppendur á aldrinum 6-15 ára ár hvert.  Þeim fylgja þjálfara, fararstjórar, foreldrar og  fjölskyldur og má því gera ráð fyrir að um 2500 manns sæki leikana. Um langt skeið hefur verið keppt bæði í alpagreinum skíðaíþrótta sem og skíðagöngu, en árið 2012 var í fyrsta skipti keppt á snjóbrettum og á sú grein án efa eftir að eflast og stækka innan leikanna. Einnig hefur verið keppt í svokölluðum stjörnuflokki um nokkurra ára skeið, en þar keppa fatlaðir og/eða hreyfihamlaðir íþróttamenn.

Aðstæður í Hlíðarfjalli eru nú með ágætum þó oft hafi verið meiri snjór í fjallinu.  Búast mótshaldarar við góðri þátttöku og miklu fjöri á afmælisleikunum í ár.  Nú þegar hafa rétt tæplega 700 börn verið skráð frá 19 félögum á Ísland, en auk þeirra eru nokkrir gestir frá Noregi sem taka þátt. Að venju verða leikarnir settir í Íþróttahöllinni á Akureyri að lokinni myndarlegri skrúðgöngu allra þátttakenda um götur Akureyrar að kvöldi síðasta vetrardags. Setningarathöfnin verður mjög vegleg á afmælisári þar sem m.a. Páll Óskar skemmtir gestum.  Fimmtudag, föstudag og laugardag er svo keppt í öllum greinum, auk þess sem yngri þátttakendur fara í þrautabrautir. Leikunum er svo slitið laugardaginn 25. apríl.

Í tilefni afmælisleika eru kvöldvökur og verðlaunaafhendingar með veglegra sniði en vanalega og allir keppendur fara heim með góðar og gagnlegar gjafir frá mótshöldurum.

Sjá dagskrá leikanna til frekari upplýsinga.

Hér má lesa um sögu Andrésarleikanna fyrstu 35 árin sem Hermann Sigtryggsson tók saman.