Alpagreinar - María, Hólmfríður, Aðalbjörg og Georg með flottan árangur erlendis

Landsliðsfól SKÍ í alpagreinum er á fullu við keppni á mótum víðsvegar um Evrópu þessa dagana.
Landsliðsfól SKÍ í alpagreinum er á fullu við keppni á mótum víðsvegar um Evrópu þessa dagana.

Undanfarna daga hefur landsliðsfólk SKÍ verið á ferð og flugi víðsvegar um Evrópu að keppa í alþjóðlegum FIS mótum.

María Finnbogadóttir skíðakona úr SKA náði sínum besta árangri í stórsvigi á mánudag í ungverska unglingameistararmótinu sem fram fór í St. Lambrecht í Austurríki.  María náði þar 6. sæti sem skilaði henni 64.48 FIS stigum, sem er mikil bæting á heimslista hjá henni, en fyrir var hún með 91.52 FIS stig í stórsvigi.  Í dag gerði María sér svo lítið fyrir og sigraði svigkeppnina á þessu sama móti, en fyrir það hlaut hún 56.36 FIS stig, sem er hennar 4. besti árangur á ferlinum í svigi.

Hólmfríður Dóra Friðgeirsdóttir skíðakona úr Ármanni náði 8. og 14. sæti á tveimur FIS stórsvigsmótum sem haldin voru í Funäsdalen í Svíþjóð um liðna helgi.  Fyrir árangurinn hlaut hún 62.87 og 81.63 FIS stig, en fyrir er hún með 60.05 FIS stig í stórsvigi.  Árangurinn fyrir 8. sætið var hennar 3. besta mót á ferlinum í stórsvigi.

Aðalbjörg Lillý Hauksdóttir skíðakona úr Víkingi keppti fyrir Íslands hönd á Ólympíuleikum Ungmenna (YOG) í Lusanne í Sviss.  Þar keppti hún í risasvigi, alpa-tvíkeppni, stórsvigi og svigi.  Aðalbjörg náði 34. sætinu í risasvigi á föstudaginn var, sem gaf henni 158.39 FIS stig, en fyrir er hún með 130.42 stig á heimslita í þeirri grein.  Því miður náði Aðalbjörg ekki að ljúka keppni í hinum greinum sínum á leikunum. 

Georg Fannar Þórðarson skíðamaður úr Víkingi keppti í stórsvig á CIT Arnold Lunn World Cup móti í Falcade - Moena á Ítalíu og náði þar 54. sæti sem gaf honum 103.31 FIS stig, sem er hans besti árangur á erlendri grundu í stórsvigi.