Æfingabúðir hjá landsliðum í skíðagöngu

Hópurinn í Sjusjøen
Hópurinn í Sjusjøen

Þessa dagana eru bæði A og B landslið í skíðagöngu í æfingabúðum í Sjusjøen, Noregi. Útaf ástandinu hefur plan skíðagöngunefndar riðlast en ákveðið var að halda æfingabúðir í Noregi þar sem nánast allur hópurinn er staðsettur þar. Þau Albert Jónsson, Dagur Benediktsson, Isak Stianson Pedersen og Kristrún Guðnadóttir eru saman á æfingum í Sjusjøen undir handleiðslu Vegard Karlstrom, landsliðsþjálfara. Snorri Einarsson er eini sem er utan Noregs en hann er í Reykjavík að æfa. Bæði hópurinn í Noregi og Snorri fara eftir svipuðu prógrami sem landsliðsþjálfarinn leggur upp með og seinni partinn er rafrænn fundur á milli hópana þar sem farið er yfir æfingar dagsins, hvernig til tókst og hvað verði gert daginn eftir. 

Eins og áður hefur komið fram hefur ástandið haft áhrif á starfsemi SKÍ og riðlað flest öllum plönum. Í skíðagöngu er hins vegar stefnt á þátttöku á HM fullorðinna í Þýskalandi í febrúar, HM unglinga í Póllandi í lok janúar og svo mun Snorri Einarsson taka virkan þátt í heimsbikarnum sem hefst í lok nóvember í Finnlandi. Nú þegar hefur EYOF verið frestað til næsta tímabils en vonandi mun vera hægt að halda aðra viðburði með einhverju móti í vetur.