A-landslið í skíðagöngu við æfingar í Noregi

Undafarna daga hefur A-landslið í skíðagöngu verið við æfingar í Noregi, nánar tiltekið í Alta í norður Noregi. Liðið ferðaðist til Alta 17.september og hefur æft þar og Langfjordborn sem er skammt frá Alta en þetta eru heimaslóðir landsliðsþjálfarans, Vegard Karlstrom.

Fyrstu fjóra dagana æfði liðið í Alta en þar eru frábærir malbikaðir stígar sem nýtast mjög vel fyrir hjólaskíði. Teknar voru tvær æfingar á dag en misjafnt var hvort þær voru hjólaskíðaæfingar eða hlaup. Virkilega fallegt og skemmtileg landslag er á staðnum og var mikið hlaupið í náttúrunni. Á fjórða degi var farið á hjólaskíðum frá Alta til Langfjordbotn en það er tæplega 80km vegalengd. Næstu þrjá daga var æft í Langfjordbotn þar sem Vegard býr en á morgun mun liðið halda heim á leið.

Að sögn Vegards er liðið í virkilega góðu standi og allar æfingar í sumar hafa gengið mjög vel. Næsta verkefni hjá liðinu er æfinga- og keppnisferð til Finnlands í nóvember og verða það fyrstu mót vetrarins. Snorri Einarsson stefnir á þátttöku á öllum heimsbikarmótum fyrir jól og mun núna í október fara til Frakklands á jökul í hæðarþjálfun. Í janúar verður tekið þátt í Scandic Cup og í febrúar eru Vetrarólympíuleikarnir. Í vetur verður því nóg að gerast í skíðagöngunni.