Tour de Ski hafið - Snorri Einarsson tekur þátt

Snorri Einarsson í brautinni í dag. Mynd: Nordic Focus
Snorri Einarsson í brautinni í dag. Mynd: Nordic Focus

Hin árlega og fræga Tour de Ski mótaröð hófst í morgun. Mótaröðin er hluti af heimsbikarnum í skíðagöngu og samanstendur af alls átta keppnum á einungis tíu dögum. Að þessu sinni fer mótaröðin fram á þremur mismunandi keppnissvæðum í tveimur löndum. Byrjað er á þremur keppnum í Val Müstair í Sviss frá 1.-3.janúar, næst er haldið til Toblach á Ítalíu þar sem tvær keppnir fara fram 5.-6.janúar. Að lokum er endað, venju samkvæmt, í Val di Fiemme á Ítalíu þar sem þrjár keppnir fara fram 8.-10.janúar. Síðasta keppnin er hin fræga "final climb" eða síðasta klifrið en sú keppni er alls 10 km að lengd en síðustu 3,5 km eru upp skíðabrekku og er mesti hallinn 30% og alls er hækkunin 420 metrar. Oft á tíðum eru miklar sviptingar á þessari síðustu keppni enda tekur hún vel í. Sigurvegari Tour de Ski er svo sá sem kemur fyrstur í mark í síðustu keppni, en ræst er út í hana eftir samanlögðum árangri úr fyrstu sjö keppnunum. 

Í morgun fór fram fyrsta keppnin en það var sprettganga með frjálsri aðferð í Val Müstair í Sviss. Snorri Einarsson var með rásnúmer 72 og endaði í 69.sæti. Fín byrjun hjá Snorra en hans styrkleiki liggur í lengri göngum og hjálpar það honum að af öllum átta göngunum er sex lengri göngur. Á morgun fer fram 15 km ganga með hefðbundinni aðferð og hópræsingu sem hefst kl.13:45 að íslenskum tíma.

Nánari upplýsingar og úrslit frá Val Müstair má sjá hér.