Skíðasamband Íslands velur íþróttafólk ársins

Skíðasamband Íslands hefur valið íþróttafólk ársins 2020. Eins og undanfarin ár er valinn einn íþróttamaður af hvoru kyni.

Íþróttakona ársins - María Finnbogadóttir (alpagreinar)

María stendur fremst allra kvenna í alpagreinum í svigi. Á árinu náði hún þeim merka árangri að sigra á sínu fyrsta alþjóðlega FIS móti erlendis sem haldið var í St. Lambrecht í Austurríki, en mótið var landsmót unglinga í Ungverjalandi (haldið í Austurríki). Auk þess að sigra á einu alþjóðlegu FIS móti náði hún tvisvar að vera meðal tíu efstu keppendana og því samtals þrisvar á árinu. María var valin til þátttöku á heimsmeistaramót unglinga í Noregi þar sem hún keppti í stórsvigi en náði ekki að ljúka keppni. Sviginu á HM unglinga var aflýst vegna covid-19 en það er hennar aðal grein.

Helstu úrslit:
1.sæti – FIS NJC SL, St. Lambrecht AUT
6.sæti – FIS NJG GS, St. Lambrecht AUT
9.sæti – FIS SL, Bormio ITA

Heimslisti:
Svig: 334.sæti (11,8%*)
Stórsvig: 969.sæti (34,5%*)

Íþróttamaður ársins - Snorri Einarsson (skíðaganga)

Snorri tekur virkan þátt í heimsbikarmótaröðinni í skíðagöngu í lengri vegalengdum, en sú mótaröð er sú sterkasta í heimi innan FIS. Á árinu náði Snorri bestum árangri sem íslenskur skíðagöngumaður hefur náð með því að enda í 18.sæti í 30 km F göngu í heimsbikarnum. Það mót var hluti af Ski Tour mótaröðinni en Snorri endaði samanlagt í 38.sæti í henni, en fyrir síðustu gönguna var Snorri í 22.sæti í heildarkeppninni en því miður klikkaði smurningin í síðustu keppninni.

Helstu úrslit:
18.sæti – Heimsbikar WC 30km F, Meraker NOR
27.sæti – Heimsbikar WC 30km C/F, Obersdorf GER
34.sæti – Heimsbikar WC 50km C, Oslo NOR

Heimslisti:
Sprettganga: 552.sæti (17,2%*)
Lengri vegalengdir: 162.sæti (3,9%*)

*: % sem hlutfall af heildar fjölda keppenda á viðkomandi heimslista. 0% er best og 100% verst.