Sævar Birgisson leggur skíðin á hilluna

Sævar Birgisson
Sævar Birgisson

Sævar Birgisson, landsliðsmaður í skíðagöngu, hefur tekið þá ákvörðun að hætta keppnisiðkun á skíðum. Sævar á að baki langan feril með hæðum og lægðum, var í 13 ár í landsliðinu og glímdi við erfið bakmeiðsl.

„Meiðsli hafa reglulega sett strik í reikninginn hjá mér og er það stór ástæða fyrir þessari ákvörðun minni. Mig langar til að þakka öllum þeim sem hafa stutt mig í gegnum tíðina á einn eða annan hátt, stuðningur ykkar hefur reynst mér ómetanlegur og komið mér í gegnum erfiða tíma. En það er þannig að þegar vel gengur er lítið mál að halda áfram að berjast, en þegar á brattann er að sækja er oft erfitt að sjá fram á betri tíð. Það að hafa komið sterkari til baka oftar en einu sinni eftir bæði meiðsli og veikindi er það sem ég er hvað stoltastur af á mínum ferli. Það eru þeir sigrar sem sitja eftir þegar ég lít yfir farinn veg.“

Eins og áður segir hefur ferill Sævars verið langur en hér má sjá hans helstu afrek. 

  • Íslandsmeistari í sprettgöngu 2006, 2008, 2011, 2012, 2013, 2014, 2015 og 2016.
  • Íslandsmeistari í göngu með hefðbundinni aðferð 2007, 2009, 2011, 2013, 2014, 2015 og 2016.
  • Íslandsmeistari í göngu með frjálsri aðferð 2008 og 2014.
  • Tók þrisvar þátt á HM. 2013 í Val di Fiemme, 2015 í Falun og 2017 í Lahti.
  • Vann sér inn þátttökurétt á Vetrarólympíuleikunum í Sochi 2014. Var hann fyrsti íslenski keppandinn í skíðagöngu til að taka þátt á leikunum síðan í Lillehammer 1994.
  • Tók tvisvar þátt í heimsbikar. Seinna skiptið var í Toblach í febrúar 2014 þar sem hann endaði í 69.sæti og fékk 92.28 FIS stig sem var hans næst besti árangur á ferlinum stigalega séð.

Skíðasamband Íslands óskar Sævari velfarnaðar í framtíðinni og um leið þakkar fyrir samstarfið í gegnum árin.