Breytingar frá FIS skíðaþingi

Skíðaþingi alþjóðskíðasambandsins FIS lauk um síðustu helgi en það fer fram annað hvert ár. Skíðasamband Íslands hefur verið aðili að FIS frá stofnun sambandsins árið 1946. Á skíðaþinginu voru þrír fulltrúar frá SKÍ og hér að neðan má sjá nokkur atriði sem var breytt.

Án efa var stærsta ákvörðun þingsins sú að breyta úthlutun styrkja frá FIS til aðildarsambanda sinni. Undanfarin ár hefur styrkurinn verið reiknaður að stærstum hluta útfrá fjölda keppenda á HM í alpa- og norrænum greinum. Eftir breytinguna er horft til fleiri þátta og reynir FIS að virka aðildarsambönd sín til að taka virkari þátt í starfsemi sinni. Nýja breytingin tekur mið af fjölda skráðra keppenda, mótahaldi ásamt þátttöku á HM. 

Alpagreinar

  • Breytingar á stórsvigsskíðum (GS) hjá körlum: Núverandi regla um stórsvigsskíði í karlaflokki er þannig að radíus þarf að vera að lágmarki 35m lengd 195cm. FIS ætlar að gera breytingu þannig að lágmarkið færist niður í 30m radíus og lengdin niður í 193cm. Þessi regla tekur gildi frá og með tímabilinu 2017/2018 í öllum keppnum.
  • Brautarlögn hjá U14 og U16: Gerðar eru breytingar á fjölda nála og vertikala í báðum flokkum. Í U14 þarf nú að vera að lágmarki tvær nálar og einn vertikali, en að hámarki fjórar nálar og tveir vertikalar. Í U16 þarf nú að vera að lágmarki þrjár nálar og einn vertikali, en að hámarki sex nálar og þrír vertikalar.
  • Hjálmaregla fyrir U14 og U16: Frá og með næsta tímabili, 2016/2017, þurfa allir í U14 og U16 að vera með FIS samþykktan hjálm á alþjóðlegum mótum. Næsta vetur mun SKÍ vera með eitt ár til aðlögunar hvað þessa reglu varðar á bikarmótum og UMÍ, en veturinn 2017/2018 verður þessi regla í gildi á öllum bikarmótum og UMÍ fyrir U14 og U16.
  • Heimsmeistaramót fullorðinna: Nú þurfa konur líka að fara í undankeppni í tæknigreinum.
  • Næstu heimsmeistaramót fullorðinna: HM 2017 fer fram í St. Moritz, Sviss. HM 2019 fer fram í Åre, Svíþjóð. HM 2021 fer fram í Cortina, Ítalíu.
  • Næstu heimsmeistaramót unglinga: HM jr 2017 fer fram í Åre, Svíþjóð. HM jr 2018 fer fram í Davos, Sviss. HM jr 2019 fer fram í Val di Fassa, Ítalíu.

Skíðaganga

  • Klassísk aðferð: Mikil umræða um klassíska aðferð, frjálsa aðferð og "double poling". Vilji til að varðveita klassísku aðferðina og því fær dómnefnd núna vægi til að merkja ákveðin svæði til að banna ákveðna tækni og "double poling".
  • Næstu heimsmeistaramót fullorðinna: HM 2017 fer fram í Lahti, Finnlandi. HM 2019 fer fram í Seefeld, Austurríki. HM 2021 fer fram í Oberstdorf, Þýskalandi.

Inná heimsíðu FIS má sjá frekari upplýsingar um breytingar sem gerðar voru á FIS þinginu.