Afmælishóf SÍÓ 4. desember

Skíðahópurinn sem mætti á hófið
Skíðahópurinn sem mætti á hófið

Samtök íslenskra Ólympíufara stóðu fyrir afmælishófi fyrir Ólympíufara og þátttakendur á Ólympíuleikum þann 4. desember. Heiðursgestur var Guðni Th Jóhannesson forseti Íslands. Það er óhætt að segja að Ólympíufarar og makar hafi fjölmennt en hátt í 100 manns mættu á hófið. Markmið fundarins var að bjóða Ólympíuförum að hittast og rifja upp gamla tíma ásamt því að halda uppá afmæli eftirtalinna leika: Tórínó (2006), Atlanta (1996), Innsbruck og Montreal (1976), Cortína og Melbourne (1956).

Guðni Th Jóhannesson forseti Íslands ávarpaði gesti og þakkaði gott boð. Hann minnti gesti á að hann kæmi úr mikilli íþróttafjölskyldu og faðir hans Jóhannes Sæmundsson hefði einmitt farið sem þjálfari frjálsíþróttaliðs Íslands á leikana í Munchen 1972.

Lárus L. Blöndal forseti ÍSÍ ávarpaði einnig gesti og við það tækifæri veitti hann Jóni Hjaltalín Magnússyni formanni SÍÓ heiðurskross ÍSÍ fyrir störf hans í þágu íþrótta á Íslandi.

Elsti þátttakandinn sem mætti var Óskar Jónsson sem keppti árið 1948 í London, en sá yngsti var Guðni Valur Guðnason kringlukastari sem keppti nú í sumar á leiknunum í Ríó.

Skíðasamband Íslands hefur verið þátttakandi á vetrarólympíuleikum frá 1948 og á því föngulegan hóp þátttakenda. Það var því ánægjulegt að geta smellt mynd af þessum skíðaköppum, en í þessum hópi eru keppendur frá fyrstu leikunum og þeim síðustu.

Fleiri myndir er hægt að sjá á myndasíðu ÍSÍ hér.